Tímatal Rómverja

Það er við hæfi að tæpa á tímatali Rómverja hér í vef sem stiklar á helstu steinum í sögu þeirra. Ekkert er nýtt undir sólinni og það vitum við að sagan endurtekur sig. Allt er í hring bundið, án upphafs og endis, orð Rómverja yfir ár var annus,hringur.

Árin talin
Tímatal okkar og marga hátíðisdaga höfum við Vesturlandabúar fengið í arf frá Róm; fyrst það júlíanska og svo það gregoríska. Rómverjar til forna höfðu þann háttinn á sínu tímatali að kenna hvert ár við þann ræðismann er þá réði. Þetta gat að sönnu ruglað menn í ríminu, því ræðismenn voru aðeins kosnir til eins árs í senn og máttu svo ekki bjóða sig fram aftur fyrr en að nokkrum árum liðnum. Svo fór að fornmenn komu sér saman um að miða tímatal sitt við það er þeir bræður Rómulus og Remus stofnuðu borgina, að það ár skyldi vera árið eitt, það er 1 ab urbe condita (eftir borgarstofnun). Það var svo árið 525 að almanak var gefið út í Róm þar sem tímatalið var miðað við fæðingu Krists og hefst árið 1 eftir Krists burð.

árið 1 a.u.c. = 753 f.Kr. (a.u.c. stendur fyrir ab urbe condita – einnig ritað anno urbis conditae, ár borgarstofnunar – og merkir „eftir borgarstofnun“.

árið 2 a.u.c. = 752 f.Kr. o.s.frv. að Kristsburði með því að draga ártal a.u.c. frá 753 þar til að mínustala fæst, þá er komið fram yfir Krist.

árið 753 a.u.c. = 1 e.Kr.

árið 754 a.u.c. = 2 e.Kr. o.s.frv. með því að draga 753 frá ártali a.u.c.; þannig að árið 2000 hefðu Rómverjar til forna viljað hafa árið 2753.

HORFT FRAM OG AFTUR Janus er guð dyra og hliða og eftir honum er fyrsti mánuður ársins nefndur.
HORFT FRAM OG AFTUR Janus er guð dyra og hliða og eftir honum er fyrsti mánuður ársins nefndur.

Dagar mánaðarins
„Það var ævaforn siður á Ítalíu að höfuðprestur kvaddi borgara til fundar í byrjun mánaðar og nefndi hátíðir þær sem halda bar á næstu þrjátíu dögum.“ (Rómaveldi I, s. 87). Því nefndist fyrsti dagur hvers mánaðar eftir þessari kvaðningu eða kalli, calendae, sem myndað var úr calare, að kalla, og úr varð calendarium, almanak, tímatal (ít. calendario, e. calendar). Til að koma skikkan á dagatalið var ákveðið að hafa þrjá viðmiðunardaga í mánuði og voru þeir gerðir lýðnum ljósir á calendae, fyrsta degi hvers mánaðar, eins og áður segir. Annar viðmiðunardagurinn, Nónsdagur, var ýmist 5. eða 7. dagur mánaðar hjá Rómverjum (frá fornu fari hefur sólarhringnum verið skipt upp í átta s.k. eyktir (frá lat. octo = átta). Nón er almennt talið vera um kl. 3 síðdegis, en þýðir upprunalega níu stundum frá sólarupprás og því nón = nonae = nove (níu)). Þriðji viðmiðunardagurinn var Idus, 13. eða 15. dagur hvers mánaðar.

Síðar komst skikkan á mánaðardagana og þeim skipt niður í vikudaga með föstum heitum. Enn bera vikudagarnir nöfn rómverskra guða og gyðja í hinum rómönskumælandi löndum.

Allt er í hring bundið, án upphafs og endis, orð Rómverja yfir ár var annus, hringur.

Mánuðirnir sem mynda árið
Sagt er að það hafi verið Rómulus sjálfur sem hafi sagt fyrir um tímatal Rómverja. Tímatal það tók mið af gangi sólar og mána og náði yfir þann tíma sem landbúnaður var stundaður, það er frá mars að vori fram til desember að hausti. Þar sem enginn landbúnaður var stundaður yfir háveturinn í janúar og febrúar og töldust þeir mánuðir ekki með. Ár fornmanna taldist því samanstanda af 10 mánuðum, 304 dögum, og má enn sjá þess stað í heitum síðustu fjögurra mánaða okkar nútímatals, þ.e. september, sem þýðir sjöundi mánuður, og svo framvegis til desember sem er okkar 12. og síðasti mánuður ársins en heitir í raun réttri tíundi mánuður. Samkvæmt sagnaritaranum Liviusi var það svo Númi konungur, arftaki Rómulusar, sem skipti árinu upp í tólf tunglmánuði.

Uppruni þess tímatals sem hefðin kennir við Núma er hins vegar talinn eiga sér í Tólftöflulögunum frá því um 450 f.Kr., hinna fyrstu rituðu laga Rómverja. Árið 153 f.Kr. var janúar gerður að fyrsta mánuði ársins í stað mars í takt við eins árs valdatíma ræðismanna.

Fyrsta janúar árið 45 f.Kr. innleiddi Júlíus Sesar, einvaldur í Róm, nýtt tímatal sem enn er að mestu notað og við hann kennt. Nú var tímatal miðað við gang sólar og mánuðir ársins töldu annað hvort 30 eða 31 dag. Fjórða hvert ár átti svo að bæta við einum degi. Árið eftir var Sesar ráðinn bani og sjöunda mánuði ársins, Quinqtilis (sem þó hét sá fimmti), gefið nafn hins látna Júlísar.

En, þrátt fyrir að allgott tímatal hafi verið smíðað gekk hinum s.k. pontifexum (brúarsmiðum) sem önnuðust tímatal illa að láta það stemma. Árið 8 e.Kr. hefur Ágústusi, fyrsta keisara Rómar frá 29 f.Kr., tekist að leiðrétta ofreikning á tímatali forvera síns og fóstra. Áttundi mánuður ársins, sem áður hét sextilis, fékk nú nafn Ágústusar og til þess að þeir frændur væru nú alveg jafnir var einn dagur fenginn að láni frá febrúar og bætt við ágúst þannig að sá mánuður og júlí hefðu báðir 31 dag.

1582 leiðrétti Gregoríus páfi XIII. svo aftur júlíanska tímatalið um 10 daga í október það ár; á eftir 4. október kom 15. október. Til að forðast uppsöfnun aukadaga var það ákveðið að þau hlaupaár sem bæru upp á sléttum árhundruðum væru ekki talin með nema talan 400 gengi þar upp í. Og hefur svo haldist síðan.

JÚPITER var helstur guða Rómverja og á hann enn fimmtudaginn, giovedí, í rómönskum málum, þann dag sem áður hét þórsdagur; sbr. ensk. Thursday. Marmarastyttan hér er þekkt sem Seifur frá Otricoli og fannst í samnefndum bæ norður af Róm. Talin vera rómversk eftirmynd grískrar brosnmyndar frá 4. öld f.kr.
JÚPITER var helstur guða Rómverja og á hann enn fimmtudaginn, giovedí, í rómönskum málum, þann dag sem áður hét þórsdagur; sbr. ensk. Thursday. Marmarastyttan hér er þekkt sem Seifur frá Otricoli og fannst í samnefndum bæ norður af Róm. Talin vera rómversk eftirmynd grískrar brosnmyndar frá 4. öld f.kr.

Heiti mánaðanna
Ekki veit maður hvort það hafi verið með ráðum gert að nefna fyrsta mánuð ársins eftir Janusi, guði hliða og dyra, upphafs og endis, en hann hefur tvö andlit, að framan og á hnakka, og sér því fram og aftur; við áramót er litið yfir liðið ár, en jafnframt horft fram á veginn. Febrúar var allt fram til 450 f.Kr. síðasti mánuður ársins og því haldin trúarleg hreinsunarhátíð, Februa (frá lat. februum = trúarleg hreinsun), þann 15. þess mánaðar. Mars heitir eftir stríðsguðinum Mars og af nafni hans einnig leitt bardagalist í nokkrum tungumálum (e. martial arts). Vormánuðurinn apríl er talinn taka heiti sitt frá latnesku sögninni aperire, því að opnast; náttúran lifnar öll við og opnast á þessum árstíma. Maímánuður heitir svo eftir gyðjunni Maju, dóttur Atlasar, en hún átti Merkúríus með Júpíter. Merkúríusi var reist mikið hof á Aventínusarhæð í Róm árið 495 f.Kr. og varð vígsludagurinn, 15. maí, að árlegum hátíðardegi þeirra mæðgina, Maju og Merkúríusar. Júnó er kona Júpiters og því tilhlíðilegt að einn mánuðurinn heiti eftir henni.

Eins og fyrr segir gáfu samtímamenn Sesars og Ágústusar sjöunda og áttunda mánuði ársins nafn þeirra. En það var þá líka látið gott heita, því enn bera síðustu fjórir mánuðir ársins sín fornu latnesku nöfn sem notuð voru löngu áður en þeir félagar Júlíus og Oktavíanus (síðar nefndur Ágústus keisari) settu sinn svip á tal og heiti mánaða.

Lokað er á athugasemdir.

Bloggaðu hjá WordPress.com.

Upp ↑